Innlent

Áheitaróður á hættuslóðum

Kjartan Jakob Hauksson sem rær nú umhverfis landið lenti í óhappi á erfiðasta kafla ferðarinnar þegar fótstig brotnaði skammt frá Hornafirði og því afréð hann að leita í land í Skinneyjarhöfða því ekki væri á það hættandi að fara þessa leið á varafótsigi sem aðeins er ætlað í neyðartilfellum. "Ég ætla að reyna að komast upp í Jökulárlón eða að Ingólfshöfða," sagði Kjartan meðan hann mat veðurskilyrði frá fjörunni í Skinneyjarhöfða í gær viðbúinn að ýta úr vör. "Það er ekki víða hægt að ná í land á suðurströndinni og því er ég viðbúinn því að þurfa að fara í gegnum brim frekar en að leita í land þó það brjóti jafnvel bátinn," segir ræðarinn. Aðeins einn annar ræðari hefur gert tilraun til að róa umhverfis landið en hann lagði árar í bát við Hornarfjörð og treysti sér ekki meðfram suðurströnd landsins þar sem erfitt er að ná að landi. Það er því ljóst að mesti áhætturóðurinn bíður Kjartans næstu daga.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×