Innlent

Borgin stuðlar að fækkun gesta

Þegar mest var um ferðir til Viðeyjar árið 2000 komu þangað yfir 28.000 gestir, og flestir yfir sumarið. Síðan þá hefur þeim fækkað jafnt og þétt og það sem af er þessu ári hafa um 7500 gestir komið. Meginástæða fækkunarinnar mun vera að Reykjavíkurborg ákvað að hætta að styrkja veitingarekstur í Viðeyjarstofu, en þeir sem til þekkja segja að 70-75 prósent heildargestafjölda í Viðey hafi verið gestir Viðeyjarstofu. "Ég tel það ekki markmið að fjölga gestum í Viðey ef leiðin til þess er að niðurgreiða veitingahúsarekstur," segir Stefán Jón Hafstein, borgarfulltrúi og formaður menningarmálaráðs. "Eyjan á að vera aðlaðandi á allt öðrum forsendum. Það er nóg af veitingahúsum í bænum og borgin á ekki að vera að vasast í þeim rekstri." Innan Reykjavíkurborgar varð í raun stefnubreyting um málefni Viðeyjar og var ákveðið að endurskoða rekstur Viðeyjarstofu. Viðey á nú fyrst og fremst að vera útivistar- og ferðamannasvæði. Stefán Jón segir að þar hafi verið lagðir göngustígar og bætt úr merkingum. Einnig stendur borgin fyrir menningarviðburðum í eynni. Ferjan er áfram niðurgreidd og einnig er nú siglt frá Reykjavíkurhöfn til að auðvelda aðgengi að henni. Þá er Höfuðborgarstofa, sem vinnur að markaðssetningu Reykjavíkur sem ferðamannasvæðis, að taka við umsjón Viðeyjar af Árbæjarsafni. Stefán segir að reksturinn hafi verið boðinn út til einkaaðila og að áhugi þeirra á veitingahúsarekstri þar hafi ekki verið mikill. Múlakaffi sér nú um reksturinn og ákvað nýverið að bjóða einungis upp á veitingaþjónustu um helgar. Þess eru dæmi að ferðamenn hafi leitað skjóls í Viðeyjarkirkju í rigningu á virkum dögum þar sem veitingahúsið er lokað. Borgin mun ekki verða með starfsemi í Viðey allan ársins hring, eyjan verður fyrst og fremst opin fólki yfir sumartímann.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×