Innlent

Með bensínbirgðir á stuðaranum

Varnarliðsmönnum á Keflavíkurflugvelli óar svo bensínverðið á Íslandi að þeir fylla alla koppa og kyrnur af bensíni uppi á velli og hafa það með sér þegar þeir leggjast í ferðalög um landið. Þannig náðu Víkurfréttir mynd af varnarliðsjeppa í hliðinu upp á völl þar sem sjö bensínbrúsum hafði verið raðað á grind sem fest var við afturstuðarann. Hver brúsi tekur líklega um 25 lítra af bensíni þannig að 175 lítrar af bensíni voru hengdir aftan á bílinn. Viðmælandi Víkurfrétta taldi þetta geta verið stór hættulegt ef eitthvað kæmi fyrir í umferðinni og líkti þessu við tifandi tímasprengju. Þessir bensínflutningar varnarliðsmanna verða skiljanlegir í ljósi þess að uppi á velli þurfa þeir að greiða aðeins 37 krónur fyrir bensínlítrann og geta því fengið tæpa þrjá lítra fyrir sömu upphæð og einn lítra utan vallarsvæðisins. Samkvæmt athugun fréttastofunnar gilda harla óljósar reglur um það hvernig menn mega flytja eldsneyti í bílum sínum, utan sjálfra bensíntankanna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×