Innlent

Bygging sumarbústaða heldur áfram

Ekkert hefur dregið úr byggingu nýrra sumarbústaða þrátt fyrir stóraukna fjárfestingu í íbúðarhúsnæði og að vextir af lánum til sumarbústaða séu talsvert hærri en af lánum til íbúðarhúsnæðis. Þeir sem koma að lóðasölu og byggingum nýrra sumarhúsa eru á einu máli um það að síður en svo sé að draga úr eftirspurninni á því sviði, samanborið við síðustu misseri. Verð á notuðum sumarbústöðum hafi þó ekki hækkað alveg jafn ört og á íbúðarhúsnæði, a.m.k. húsnæði á höfuðborgarsvæðinu, sem bendi til þess að þessi markaður sé í meira jafnvægi. Sammerkt sé að bústaðirnir séu að verða stærri og vandaðri með hverju árinu og nú sé að verða algent að menn steypi sökkla undir þá líkt og íbúðarhús. Bankarnir hafa verið að lána á vöxtum frá 4, 95 prósentum til bústaðabygginga, sem eru talsvert hærri vextir en til íbúðakaupa, og ekki er lánað meira en 60 prósent af kaupverði eða byggingarkostnaði. Að sögn Kristins Bjarnasonar hjá Frjálsa fjárfestingabankanum stafar þessi munur ekki síst af því að eigendum sumarhúsa er ekki skylt að tryggja sig gegn vatnstjónum, eins og brunatjónum, en vatnstjón eru algeng tjón í sumarhúsum. Þá eru leigulóðarsamningar í sumum tilvikum ekki langt fram í tímann. Loks er hægt að flytja sumarbústaði af sökklum sínum, eða stela veðinu ef svo má segja, þótt ekki hafi enn komið til þess, að sögn Kristins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×