Innlent

Flóðin nái hámarki í kvöld

Búist er við að flóðin í Jöklu við Kárahnjúka nái hámarki í kvöld og að brúin yfir hana fari á bólakaf, eins og gerðist óvænt í fyrrasumar. Brúnni var aftur lokað í gærkvöld vegna vatnavaxtanna og flaut aðeins yfir brúargólfið, sem er meira flóð en í gær og fyrradag. Í fyrra komst vatnsmagnið mest í að það að tveggja metra dýpi var orðið niður á brúargólfið. Ekki er búist við að það verði meira núna. Varnarstíflan fyrir neðan brúna, sem hækkuð var í skyndingu í flóðunum í fyrra, á alveg að standast þessa vatnavexti, þótt hún sé eitthvað farin að leka, en dæling hefur verið aukin að sama skapi. Öll vinna gengur eðlilega neðan við hana og á starfsmönnum ekki að vera hætt þegar búist er við mestu flóðahæðinni í kvöld. Þetta flóð núna er með ólíkindum , miðað við þær upplýsingar Landsvirkjunar í fyrra að þau ættu ekki að geta komið nema með margra áratuga millibili. Nú koma þau tvö ár í röð. Þrátt fyrir að loka verði brúnni tefjast framkvæmdir ekkert, að sögn Landsvirkjunarmanna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×