Innlent

Smáhveli strandaði á Siglufirði

Um tveggja metra langur blettahnýðir, smáhveli af höfrungaætt, strandaði í tvígang á Siglufirði síðastliðinn miðvikudag. Í bæði skiptin losnaði hann af sjálfsdáðum en virtist vankaður eftir síðara strandið; synti í hringi og hvarf loks sjónum Siglfirðinga. Símon Helgason sá fyrstur manna höfrunginn en þá var hann í fjöruborðinu við steypustöðina og vélaleiguna Bás. "Ég náði mér í langa spýtu og ætlaði að hjálpa honum að komast úr fjörunni en áður en til þess kom náði hann að synda út aftur. Höfrungurinn var svo nærri landi að ég hefði getað klappað honum ef ég hefði verið á stígvélum," segir Símon. Eftir að höfrungurinn losnaði úr fjöruborðinu synti hann austur yfir fjörðinn og strandaði á ný á grynningum. Þar bægslaðist hann um hríð svo sjórinn í kring varð moldarlitaður á stóru svæði. Þegar hann losnaði virtist hann ekki ná áttum strax og synti í hringi áður en hann hvarf.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×