Innlent

Lögmæti sölu stofnfjár enn skoðað

Sex komu inn og fimmtán fóru úr hópi stofnfjáreigenda í Sparisjóði Hafnarfjarðar í gærkvöld. Ný stjórn styrkti stöðu sína en Fjármálaeftirlitið er enn að skoða lögmæti verslunar með stofnfé. Hinir nýju eigendur eru Sigurður G. Guðjónsson lögmaður sem á tvo hluti, Sigurður Bollason og Magnús Ármann fjárfestar, Björn Þorri Viktorsson fasteignasali, Jón Erling Ragnarsson og Björn Magnússon. Á fundinum kom fram að 15 af 47 stofnfjáreigendum hafi selt hluti sína, hvern á um 50 milljónir króna. Ýmsir halda því fram að hinir nýju stofnfjáreigendur gangi erinda bankanna og þetta sé hluti af því að ná völdum yfir sparisjóð Hafnarfjarðar. Það væri synd að segja að kjaftað hefði hver tuska á stofnfjáreigendunum. Matthías Á. Matthiesen, einn stofnfjáreigenda, benti blaðamönnum á að þeir yrðu að tala við talsmenn stjónarinnar ef þeir ætluðu að fá upplýsingar um fundarefni. Matthías sagðist ekki vera búin að selja og hyggðist ekki gera það. Ingvar Viktorsson sagði einnig að fréttamenn þyrftu að ræða við þá sem á eftir honum kæmu. Árni Matthiesen vildi heldur ekki tjá sig um fundarefni en sagðist enn eiga sinn hlut. Stjórnarformaður Sparisjóðs Hafnarfjarðar vildi ekkert tjá sig við fréttamenn. Jónas Fr. Jónsson forstjóri Fjármálaeftirlitsins sagði í samtali við fréttastofu að skoðun eftirlitsins á sölu á stofnfjárhlutum innan Sparisjóðs Hafnarfjarðar væri ekki lokið; henni yrði haldið áfram.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×