Erlent

Föðurlandslögin framlengd

Bandaríkjaþing hefur samþykkt, með miklum meirihluta, að framlengja Föðurlandslögin svokölluðu, sem gefa lögreglunni rýmri starfsheimildir í baráttunni við hryðjuverkamenn. Föðurlandslögin áttu að falla úr gildi þrítugasta og fyrsta desember, næstkomandi, en hafa nú verið framlengd. Þótt það væri á endanum samþykkt með miklum meirihluta, voru síður en svo allir vissir um ágæti laganna og umræðurnar stóðu í níu klukkustundir. George Bush, forseti, lagði sitt lóð á vogarskálarnar í ræðu sem hann hélt fyrr í dag. Hann sagði augljóst að hryðjuverkamenn væru enn virkir og nefndi London máli sínu til stuðnings. Hann sagði þá enn sitja um líf saklausra borgara. Hann sagði skilaboð sín til þingsins vera skýr: "Nú er brýnt að sofna ekki á verðinum. Það má ekki henda út góðum lögum. Föðurlandslögin eiga að hverfa af sjónarsviðinu en hryðuverkaógnin hverfur ekki af sjónarsviðinu. Ég og bandaríska þjóðin væntum þess að Bandaríkjaþing og öldungadeildin framlengi föðurlandslögin án þess að draga úr getu okkar til að berjast gegn hryðjuverkum og ég vill fá lögin inn á borð til mín sem fyrst." Föðurlandslögin gefa lögreglunni mjög rúmar starfsheimildir við að fylgjast með hugsanlegum hryðjuverkamönnum, og hefur sumum mannréttindasamtökum þótt nóg um hversu langt er gengið. Almenningur virðist þó sætta sig við þetta. Og framlenging laganna var samþykkt með 257 atkvæðum gegn 171.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×