Innlent

Æfingasvæði fyrir vélsleða

Mynd/ÞÖK
Sveitarfélagið Ölfus hefur tekið torfæruhjóla- og vélsleðamenn upp á sína arma og veitt þeim afnot af stóru æfingasvæði þar sem annað útivistarfólk á sjaldnast leið um. Nánar til tekið er svæðið norðan Litlu Kaffistofunnar og allt upp í Jóspesdal, þar sem aksturs- og æfingabrautir verða lagðar. Talið er að nú séu um það bil fjögur þúsund torfæruhjól í landinu eftir gríðarlega fjölgun síðustu misserin. Þessi aukning hefur leitt til aukins utanvegaaksturs og árekstra við annað útivistarfólk, sem amast við vélfákunum bæði hljóð og sjónmengun þeirra. Vélhjólaíþróttaklúbburinn og Landssamband íslenskra vélsleðamanna hafa undanfarin ár átt í viðræðum við sveitarfélög á Suðvesturhorninu um slíkt æfingasvæði, en án árangurs  þar til nú. Þessi úthlutun er gerð í samráði við Umhverfisstofnun, Landgræðslu ríkisins og Orkuveitu Reykjavíkur, sem er landeigandi á þessum slóðum. Sigríður Anna Þórðardóttir umhverfisráðherra, sem hefur kynnt sér málið, verður viðstödd undirritun um afnot af svæðinu í dag. Hrafnkell Sigtryggsson formaður Vélhjólaíþróttaklúbbsins segist sannfærður um að með tilkomu svæðisins dragi verulega úr utanvega akstri vélhjóla.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×