Innlent

Ökuníðingar á ofsahraða

Þrír ökuníðingar mældust á ofsahraða í gærkvöldi og í nótt og þykir mildi að ekki hlutust stórslys af háttarlagi þeirra. Fyrsta tilvikið var norður í Öxnadal, þar sem lögreglan á Akureyri mældi bíl á 134 kílómetra hraða, sem í sjálfu sér væri ekki háskalegt við bestu aðstæður og enga umferð. En það var hinsvegar blind þoka á svæðinu þannig að vart sá á milli stika í vegkantinum, þannig að skyggni hefur aðeins verið um 50 metrar. Útilokað hefði verið fyrir ökumanninn að stöðva bílinn á þeim spotta, ef einhver fyrirstaða hefði verið á veginum. Þá mældi lögreglan í Keflavík bifhjól á 228 kílómetra hraða á Reykjanesbraut á móts við Vogaafleggjara um ellefu leytið í gærkvöldi. Ökumaðurinn virti stöðvunarmerki lögreglu að vettugi og hvarf út í buskann. Lögreglan í Kópavogi  mældi svo bíl á ofsahraða, eða 176 kílómetrum, á mósts við Smáralind á leið til Reykjavíkur um klukkan fjögur í nótt og var lögreglu þar strax gert viðvart. Hún mældi bílinn á rúmlega 160 kílómetra hraða á Sæbraut en á Héðinsgötu á Laugarnesi missti ökumaður stjórn á bílnum, sem fór yfir á öfugan vegarhelming , lenti þar á kyrrstæðum bíl og kastaðist út á grasflöt, þar sem hann nam staðar. Ökumaður, sem aldrei hefur tekið bílpróf, reyndist óviðræðuhæfur vegna ölvunar og gistir fangageymslur. Lögregla telur mikla mildi hversu lítil umferð var á meðan á þessu stóð. Líklegt er að ákæruvaldið láti málið til sín taka fremur en að því verði lokið með sektum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×