Innlent

Ganga þvert á markmið

Félagsmálanefnd Alþingis fundar nú vegna umdeildra samninga Íbúðalánasjóðs við banka og sparisjóði. Áttatíu milljarða lánasamninga sem farið hafa leynt. Guðmundur Bjarnason, forstöðumaður Íbúðalánasjóðs, mætti við fjórða mann á fund nefndarinnar en einnig voru forstöðumenn Seðlabankans, ríkisendurskoðandi, fulltrúar frá félagsmálaráðuneytinu og fleiri kallaðir til. Fréttamaður fréttastofunnar innti Pétur Blöndal, einn nefndarmanna, um hans álit á samningunum þegar hann brá sér af fundi rétt fyrir hádegi. Hann segir að þeir séu þannig, eftir því sem honum sýnist, að viðkomandi banki láni fyrsta veðrétti fyrir hönd Íbúðalánasjóðs upp að þeim mörkum sem hann séu með. Síðan láni hann öðrum veðrétti umfram mörkin, allt að 25 milljónum, en Íbúðalánasjóður kaupi það safn lána. Aðspurður hvort hann telji þetta brot á lögum um hámarkslán sjóðsins segir Pétur að menn hafi sagt að þetta sé til að bjarga áhættustýringu Íbúðalánasjóðs, og það séu rök fyrir því. „En þetta náttúrlega gengur þvert á markmið Íbúðalánasjóðs. Hann er stofnaður til þess að veita lán upp að ákveðnu hámarki og hann er stofnaður til þess að veita lán til íbúðakaupa og þessi lán eru hvorugt,“ segir Pétur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×