Innlent

Ný verksmiðja við Mývatn

Ríkisstjórnin hefur samþykkt tillögu iðnaðarráðherra að verja allt að tvöhundruð milljónum til að kaupa hlutabréf í pappabrettaverksmiðju við Mývatn. Verksmiðjan verður í húsi gömlu kísílgúrverksmiðjunnar sem hætti starfsemi í fyrra. Frá því starfsemi Kísiliðjunnar lauk í desember í fyrra hefur iðnaðarráðuneytið skoðað hvernig hægt væri að nýta verksmiðjuna undir atvinnuskapandi starfsemi. Framleiðsla á vörubrettum úr endurunnum pappír var  talin líklegust til að skila árangri og var Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins falið að meta arðsemina. Sjóðurinn telur hugmyndina líklega til að skila ávöxtun og verið er að greina áhættuþætti þessu samfara. Valgerður Sverrisdóttir Iðanaðarráðherra hefur falið Nýsköpunarsjóði að ganga til samninga við fyrirtækið Grænar lausnir um kaupa hlutabréf í félaginu fyrir 200 milljónir verði áhættan talin ásættanleg. Um þrjátíu þúsund tonn falla til af pappír árlega í fyrirtækjum og á heimilum landsins. Iðnaðarráðherra segir að fyrirhugað sé að allt að ellefu þúsund tonn af pappírsúrgangi fari til framleiðslu á vörubrettum. Búist er við að allt að tuttugu manns geti starfað við verksmiðjuna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×