Erlent

Saddam verður ákærður

Saddam Hussein verður ákærður fyrir fjöldamorð gegn sjíum árið 1982. Þetta verður fyrsta dómsmálið sem höfðað verður gegn einræðisherranum fyrrverandi. Raid Juhi, aðaldómari við sakadómstólinn sem settur var upp til að fjalla um glæpi Saddams, lýsti því yfir í gær að rannsókn væri lokið á fjöldamorðum sem framin voru á 150 sjíum í þorpinu Dujail, skammt norður af Bagdad, 8. júlí 1982. Öryggissveitir forsetans stóðu fyrir aftökunum en skömmu áður hafði verið reynt að ráða Saddam af dögum. Aðrir sem verða ákærðir fyrir þátttöku í þessum fjöldamorðum eru Barazan Ibrahim, hálfbróðir Saddams og yfirmaður öryggislögreglunnar, Taha Yassin Ramadan, fyrrverandi varaforseti, og Awad Hamed al-Bandar, sem var á þessum árum embættismaður Baath-flokksins í Dujail. Verði fjórmenningarnir fundnir sekir gæti dauðadómur beðið þeirra. Dómstóllinn hefur hálfan annan mánuð til að ákveða hvenær réttarhöldin hefjast. Juhi sagði að rannsókn annarra glæpa sem Saddam er grunaður um að hafa framið muni ljúka á næstu vikum. Þar á meðal eru svonefnd Anfal-aðgerð gegn Kúrdum á árunum 1987-88 en talið er 182.000 Kúrdar hafi týnt lífi í þeim hreinsunum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×