Innlent

Bindisleysið kostaði hann leigubíl

Sagt er að vinnuföt dagsins í dag séu spariföt morgundagsins. Í þeim orðum felst að klæðaburður verði sífellt frjálslegri, bæði hversdags og spari. Örnólfur Thorlacius, fyrrum rektor Menntaskólans við Hamrahlíð og þar áður kennari við Menntaskólann í Reykjavík, man tímana tvenna í þeim efnum. "Þegar ég kenndi í MR á árunum 1960 til 1967 var alvanalegt að kennarar væru í jakkafötum og með bindi," rifjar Örnólfur upp. "Nemendur voru þá líka vel til fara og jafnan í jakkafötum. Það var svo einn daginn að ég var á leið í skólann til að halda munnlegt stúdentspróf í náttúrufræði. Ég var kominn vel áleiðis þegar ég uppgötvaði að ég hafði gleymt að hnýta á mig hálsbindið." Örnólfur segir að hefði hann verið á leið til hefðbundinnar kennslu hefði hann eflaust haldið áfram för og unnið sín störf bindislaus. Hann var enda í hópi yngri kennara skólans og hefði getað leyft sér slíkt frjálsræði. En þetta var enginn venjulegur dagur; stúdentspróf framundan. "Ég snéri því við og hengdi á mig hálsbindið," segir Örnólfur sem bjó þá í Háaleitinu. "Fyrir vikið var ég að verða of seinn og þetta kostaði mig því leigubíl. Það var ekki annað að gera." Svona var tíðarandinn í þá daga en breyttist fáum árum síðar. Haustið 1967 hóf Örnólfur störf við hinn nýstofnaða MH. "Þar gengu menn helst á tímabili í verksmiðjubleiktum og skellóttum gallabuxum og ég man eftir dreng sem verðlaunaður var ár eftir ár fyrir góðan námsárangur. Alltaf kom hann upp til rektors með sítt og ógreitt hárið og í skellóttu gallabuxunum sínum. Þegar svo leið að útskrift hans upphófst mikið stríð á heimilinu því foreldrar hans ætluðu að þvinga hann til að klæðast smóking við útskriftarathöfnina eins og allir klæddust þá. Eftir talsvert þóf samdist þeim um að strákur færi þó í nýjar gallabuxur." Örnólfur segir "gallabuxnadrenginn" vera virðulegan lækni í útlöndum í dag, "og vafalaust gengur hann með stífaðan flibba og allt hvað eina," segir hann.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×