Erlent

Fleiri við gæslu en að mótmæla

Um 200 mótmælendur gengu um götur Kaupmannahafnar í gær og mótmæltu komu George Bush til landsins. Mótmælendurnir voru svartklæddir og gengu um með skilti þar sem Bush var tjáð að hann væri óvelkominn. Einn var handtekinn fyrir að brenna bandaríska fánann. Bandaríkjaforseti lenti á Kaupmannahafnarflugvelli í gærkvöld þar sem hann er í opinberri heimsókn ásamt eiginkonu sinni og dóttur en hann fer svo til Gleneagles í Skotlandi síðar í dag en þar verður G8-fundurinn haldinn. Bush-fjölskyldan gisti í sveitahöllinni Fredensberg skammt norðan við Kaupmannahöfn í boði Danadrottningar. Kristján Sigurjónsson, fréttaritari Fréttablaðsins, var viðstaddur mótmæli hjá Fredensberg þegar Bush kom þangað. Þar var einungis fámennur hópur mótmælenda og ljóst að lítið varð úr fyrirætlunum þeirra um að halda vöku fyrir Bush fram á nótt við höllina. Kristján sagði þó öryggisgæslu hafa verið gríðarlega. Mótmælendurnir lofuðu meiri fjölda í mótmælum sem verða í Kaupmannahöfn í dag. Anders Fogh Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, tók á móti Bush-fjölskyldunni við komuna og munu þeir snæða saman morgunverð og ræða hugsanlegar lausnir á vanda Afríkuríkja.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×