Innlent

Viðurlög við kaupum á vélaolíu

Ef þú kaupir notaðan fólksbíl sem einhvern tíma hefur verið tekin vélaolía á, ert það þú sem færð sektina ef upp kemst um málið en ekki fyrri eigandi. Sektin getur numið tugum þúsunda króna. Sindri Sindrason veit meira um málið. Settar hafa verið upp sérstakar dælur með vélaolíu á bensínstöðum landsins. Olía þessi er þó ekki ætluð venjulegum bílum, heldur dráttarvélum, slökkvibifreiðum og vélum af ýmsu tagi. Vélaolían er mun ódýrari en díselolían og kostar aðeins rúmar fimmtíu og níu krónur. Ef upp kemst að ökumaður bifreiðar sem ekki má nota vélaolíuna, notar hana má hann búast við sekt allt að tífalt upphæðinni sem viðkomandi hagnaðist um. Það er í höndum Umferðareftilits Vegagerðarinnar að taka prufur úr bensíntönkum til þess að skoða hvort menn séu að svindla en vélaolían er öðruvísi á litinn og því ekki vandamál að finna út hverjir séu að svindla. Sævar Ingi Jónsson, deildarstjóri Umferðareftirlitsins, segir nýju eigendurna bera alla ábyrgðina. Og það sem meira er, ef þú færð ökutæki lánað sem einhvern tíma hefur fengið vélaolíu, og ert stöðvaður, ert það þú sem berð ábyrgðina og færð sektina, ekki eigandinn. Sævar segir því mikilvægt að menn láti athuga alla notaða bíla sem keyptir eru. Hjá B&L fengust þær upplýsingar að ekki væru til tæki innan fyrirtækisins sem rannsakaði hvers konar olía hefði verið notuð á bílana og gætu því viðskiptavinir aldrei verið vissir um bílana sem þeir væru að spá í. Það er því ljóst að ákveðin áhætta felst í því að kaupa notaða dísilbíla hér eftir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×