Erlent

Olían hefur aldrei verið dýrari

Hækkandi heimsmarkaðsverð á olíu er farið að hafa veruleg áhrif á hagkerfi ýmissa þjóða en undanfarið hefur verð á tunnu af olíu farið yfir 60 dollara og margir spá enn frekari hækkunum framundan. Verðið hefur hækkað um tæp 40 prósent frá því um síðustu áramót og bendir ekkert til að hækkanir stöðvist eða gangi til baka enda aldrei meiri eftirspurn á hinum vestræna markaði en nú yfir hásumarið. Hefur verð bæði í New York og London ítrekað hækkað meira þessa viku en áður hefur þekkst. "Það er með hreinum ólíkindum hvað markaðurinn tekur á sig og virðist vera óstöðvandi," segir Tom Bentz hjá fjárfestingarbankanum BNP Paribas. Hann er einn af þeim sérfræðingum sem telja ekki útilokað að verð á tunnu geti farið í hundrað dollara áður en langt um líður. Íslendingar hafa ekki farið varhluta af þessum hækkunum á heimsmarkaðsverði. Í gær hækkuðu íslensku olíufélögin öll verð sitt nema Skeljungur. Er það í þriðja sinn á tæpum mánuði sem slíkt gerist. Eldsneyti er stór kostnaðarliður hjá sjávarútvegsfyrirtækjum og í flugiðnaði. Guðjón Arngrímsson hjá Icelandair segir óhjákvæmilegt að bregðast við með hækkunum haldi olíuverð áfram að hækka en það standi þó ekki til að svo stöddu. Erna Hauksdóttir hjá Samtökum ferðaþjónustunnar segir allar hækkanir koma sér illa fyrir greinina en ferðamönnum hefur fækkað hér á landi í ár. "Fleiri og fleiri vilja keyra um landið okkar en munu eflaust hugsa sig um með tilliti til bensínverðsins."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×