Erlent

Óbreytt kjarnorkuáætlun

Mahmoud Ahmadinejad, nýkjörinn forseti Írans, lýsti því yfir á blaðamannafundi í gær að hann hygðist beita sér fyrir því að kjarnorkuáætlun landsins yrði haldið áfram. Hann staðhæfði að kjarnorkan yrði þó aðeins notuð í friðsamlegum tilgangi. Stjórnvöld í Bandaríkjunum fullyrða hins vegar að það sé tilgangur Írana að koma sér upp kjarnorkuvopnum. Í ræðu sinni sagði Ahmadinejad að honum væri sama þótt Bandaríkin væru ósátt með kjör hans, að Íran þyrfti ekki á stuðningi Bandaríkjanna að halda til frekari uppbyggingar, uppbygging í Íran myndi byggja á frelsi og mannréttindum fyrir alla. Ahmadinejad, sem er fyrrverandi borgarstjóri Teheran, þykir afskaplega íhaldssamur og er fulltrúi afla í Íran sem Vesturlöndum hugnast ekki. Stjórnmálaskýrendur segja margir að kjör hans geri það nær útilokað að Íran færist í átt til meira frjálslyndis. Hann þótti hins vegar standa sig með prýði á þessum fyrsta blaðamannafundi sínum eftir kjörið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×