Erlent

Fuglaflensa í Japan

Fuglaflensusmit hefur greinst í hænsnum á bóndabæ í norðaustur Japan. Nú hafa allir flutningar á eggjum og fuglakjöti verið bannaðir frá svæðinu um stundarsakir þar til yfirvöld telja sig hafa tryggt að flensan breiðist ekki út. Bændur í nágrenninu hafa allir verið skyldaðir til þess að sótthreinsa hjá sér gripahús. Leitað hefur verið að smiti á bæjum í nágrenninu en ekkert fundist. Meira en 800 hænsn hafa drepist á bænum síðan í apríl og hafa prófanir nú staðfest grun manna um að um fuglaflensusmit sé að ræða. Fuglarnir voru smitaðir með H5N2-afbrigði flensunnar sem er ekki jafn hættulegt og H5N1-afbrigðið, sem hefur orðið rúmlega fimmtíu manns að bana í Suðaustur-Asíu síðan 2003. Hirofumi Kurita, landbúnaðarráðherra Japan, sagði í gær að flensuafbrigðið sem greindist í fuglunum sé ekki líklegt til að vera hættulegt mönnum. Engu síður hafa starfsmenn á býlum í nágrenninu verið skikkaðir í læknisskoðun til þess að ganga úr skugga um að smitið hafi ekki borist í menn. Um 300 þúsund fuglar drápust úr fuglaflensu í Japan í fyrra, eitt tilfelli greindist í manni en hann hefur náð bata. Haraldur Briem sóttvarnarlæknir segir að nokkur afbrigði af flensunni séu greinilega á ferðinni en munurinn felist í því að afbrigðin hafi mismunandi mótefnavaka. Hann segir ekki fara neinum sögum af því að menn hafi smitast af því afbrigði sem núna fannst í Japan. "Maður getur ekkert fullyrt um að þetta afbrigði sé alveg skaðlaust enn þá, það fer eftir því hvernig þetta þróast," segir Haraldur. Enn annar stofn greindist í Hollandi í fyrra en þá veiktust 90 manns og einn lést. Haraldur segir að full ástæða sé til þess að vera á varðbergi gagnvart fuglaflensunni og að í hvert skipti sem fréttir berist af smiti séu það slæmar fréttir. Menn horfi til þess núna að reyna að koma í veg fyrir að flensan breiðist út meðal manna, vel sé fylgst með öllum smitum til að reyna að kæfa faraldur í fæðingu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×