Erlent

Enn hörmungarástand á svæðunum

Hörmungarástand er ennþá á hamfarasvæðunum í Asíu þar sem flóðbylgjan annan dag jóla olli gjöreyðileggingu. Uppbygging gengur afar hægt og fórnarlömbin þarfnast enn mikillar hjálpar, hálfu ári síðar.  Náttúruhamfarirnar í Asíu annan dag jóla kostuðu 226 þúsund manns lífið. Hálfu ári síðar eru enn tvær milljónir manna háðar matargjöfum og óteljandi hafast við í flóttamannabúðum. Óvíða er hafið nokkur uppbyggingarstarf af viti og fórnarlömbin eru bæði ósátt og enn í áfalli. Verst er ástandið í Aceh-héraði á Indónesíu þar sem mannskaðinn var einna mestur. Þar er talið að 168 þúsund hafi farist eða sé saknað og daglega finnast líkamsleifar í rústum. Foreldrar leita enn barna sinna og átta þúsund börn eru munaðarlaus. Baldur Steinn Helgason, sem er á vegum Rauða krossins í Banda Aceh, segir skelfingu enn grípa um sig á meðal íbúanna þegar jarðskálftakippir finnist. Og hann segir þá sem misstu ástvini og heimili sín enn í frekar slæmu ástandi. Þess vegna hafi flest hjálparsamtökin sem starfi á svæðinu lagt upp með langtímaáætlun, eða allt upp í tíu ár. Baldur segir stóran hluta borgarinnar eins og eftir kjarnorkustyrjöld; víða séu aðeins eitt og eitt tré á stangli og svo sjáist t.d. flísalögð gólf húsa en húsin sjálf hvergi sjáanleg. Hjálparstofnanir segja nauðsynlegt að reisa 120 þúsund heimili fyrir hálfa milljón heimilislausra en það starf hefur gengið seint. Það var fyrst í maí sem stofnunin sem hefur umsjón með dreifungu gjafafés tók að fjármagna verkefni og talsmenn hjálparsamtaka segja verkefni þar almennt um tveimur mánuðum á eftir áætlun. Á Srí Lanka er ástandið litlu betra. Helen Ólafsdóttir, sem vinnur að friðargæslu þar, segir samkomulag reyndar hafa náðst á föstudag á milli stjórnvalda og Tamil-tígranna um að setja á fót nefndir til að dreifa hjálpargögnum og koma uppbyggingunni af stað í austur- og norðurhluta landsins þar sem tígrarnir ráða yfir stórum landssvæðum. Það sé hins vegar staðreynd að í suðurhlutanum búi fólk enn í tjöldum og sumir hafi enga hjálp fengið. Stjórnvöld á Srí Lanka eru því gagnrýnd fyrir það að ekki nóg sé að gert. Á Srí Lanka missti í það minnsta hálf milljón heimili sín. Þó að ástandið sé víða slæmt og horfurnar ekki góðar gera menn sér þó vonir um að að lokinni uppbyggingunni, sem mun að líkindum taka um áratug, verði ástandið betra en áður: innviðir svæðanna verði betri, hvort sem um er að ræða vegi eða byggingar; þróunarverkefni skili meiri lífsgæðum og jafnvel að hörmungarnar knýi deilendur í Aceh og á Srí Lanka til að slíðra sverðin og semja frið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×