Erlent

Felldu tæplega 180 talibana

MYND/AP
178 talibanar voru felldir og 56 handteknir í átökum í suðurhluta Afganistans sem staðið hafa síðustu þrjá daga. Frá þessu greindi varnarmálaráðuneyti landsins í dag. Um var að ræða samhæfðar aðgerðir afganska hersins og þess bandaríska og létust flestir talibananna í loftárásum Bandaríkjahers. Hins vegar sluppu tveir háttsettir talibanar úr klóm hersveitanna eftir að sveitirnar höfðu umkringt þá, að sögn talsmanns varnarmálaráðuneytisins. Afganskar og bandarískar hersveitir hafa sótt hart fram gegn uppreisnarmönnum úr röðum talibana í suðurhluta landsins í von um að brjóta andspyrnu þeirra á bak aftur fyrir þingkosningar í landinu í haust en sérfræðingar á svæðinu segja það erfitt verk þar sem uppreisnarmenn hafi fengið liðsstyrk í vor frá löndunum í kring.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×