Erlent

Harðlínumenn með tögl og hagldir

Mahmoud Ahmadinejad vann stórsigur í írönsku forsetakosningunum og hafa harðlínumenn í landinu þar með flest völd í höndum sér. Ríkisstjórnir Bandaríkjamanna og Breta taka úrslitunum af varfærni en gagnrýna þó framkvæmd kosninganna. Í kosningunum á föstudaginn var kosið á milli þeirra Hashemi Rafsanjani, fyrrverandi forseta og Mahmoud Ahmadinejad, borgarstjóra í Teheran. Kjörsókn var allgóð en þegar yfir lauk höfðu um 59 prósent kjósenda neytt atkvæðisréttar síns. Það er örlitlu lakari kjörsókn en í fyrri umferðinni en þá kusu 63 prósent. Búist var við að mjótt yrði á mununum í kosningunum og raunar bentu fyrstu tölur til að Rafsanjani hefði farið með sigur af hólmi. Þegar talið hafði verið upp úr kössunum kom hins vegar í ljós að Ahmadinejad hafði unnið stórsigur. Hann fékk 61,6 atkvæða en keppinautur hans aðeins 35,9 prósent. Í ávarpi sínu til þjóðarinnar lofaði hinn nýi forseti að sætta þjóðina en um leið reyndi hann að sannfæra fólk um að hann myndi halda áfram markvissri efnahagsuppbyggingu landsins. Talsmaður Ahmadinejad sagði að stuðningsmenn forsetans myndu nú halda í moskur og "þakka Guði fyrir þennan mikla sigur." Eftir kosningarnar í fyrradag fara harðlínumenn nú með öll völd í írönskum stjórnmálum en þeir sigruðu í þingkosningunum á síðasta ári. Raunveruleg völd í landinu liggja hins vegar hjá æðsta ráði klerkanna. Búast má við að Ahmadejad verði Vesturlöndunum óþægur ljár í þúfu, ekki síst þegar kemur að viðræðum um kjarnorkumál. Joanne Moore, formælandi bandaríska utanríkisráðuneytisins, sagði að kosningarnar kölluðu ekki á stefnubreytingu hjá stjórninni í Washington til Írans en hún gagnrýndi jafnframt framkvæmd þeirra. Í svipaðan streng tók Jack Straw, utanríkisráðherra Bretlands en hann sagði "alvarlega ágalla" hafa verið á kjörfundinum og benti á máli sínu til stuðnings að fjölmörgum borgurum, þar á meðal konum, hefði verið meinað að bjóða sig fram. Nokkuð var um kvartanir til íranska innanríkisráðuneytisins vegna áróðurs stuðningsmanna frambjóðenda en fá alvarlegt atvik komu upp.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×