Erlent

Uppbygging húsa óvíða hafin

Fátækir fá minnsta aðstoð í kjölfar náttúruhamfaranna í Asíu. Ríkir hafa fengið stærsta hluta aðstoðarinnar. Þá bendir bresk rannsókn til þess að á fáum stöðum sé byrjað að byggja hús fyrir þá sem misstu sín. Stór hluti fjárframlaga og hjálparinnar til handa fórnarlömbum flóðbylgjunnar í Asíu fór til þeirra sem auðugastir eru, samkvæmt nýrri skýrslu sem bresku góðgerðasamtökin Oxfam hafa tekið saman. Fátækir, sem þurftu einna helst á hjálp að halda fengu einna minnst á meðan mest lenti í vasa stóreignafólks, bæði kaupsýslumanna og landeigenda. Fyrir vikið er óttast að fjárframlögin breikki biliði á milli ríkra og fátækra í löndunum sem verst urðu úti og var bilið þó víða breitt fyrir. Fátækir eru jafnframt mun lengur í flóttamannabúðum og eiga fyrir vikið erfiðara með að koma fótunum undir sig á ný. Nú, hálfu ári eftir hamfarirnar, bendir önnur, bresk rannsókn til þess að nánast hvergi sé hafist handa við að byggja húsnæði fyrir þá sem misstu sitt. Þar togast hins vegar á tvenns konar sjónarmið: annars vegar að fá öllum húsnæði og hins vegar að byggja ekki bráðabirgðahúsnæði sem þarf að rífa heldur skipuleggja og undirbúa byggingar. Sérfræðingar Sameinuðu þjóðanna telja víst að það taki í það minnsta áratug að byggja upp allt það sem flóðbylgjan hrifsaði með sér.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×