Erlent

Harðlínumenn hafa öll valdaembætti

Harðlínumenn unnu óvænt stórsigur í annarri umferð forsetakosninga í Íran í gær. Þeir hafa nú öll valdaembætti í landinu í höndum sér. Mahmoud Ahmadinejad, sem er borgarstjóri í Teheran og mjög íhaldssamur, vann stórsigur á mótframbjóðanda sínum Akbar Hashemi Rafsanjani, hlaut alls 62 prósent atkvæða. Rafsanjani fékk 36 prósent. Búist hafði verið við því að munurinn yrði lítill svo að úrslitin komu nokkuð á óvart. Ahmadinejad virðist einkum hafa hlotið stuðning fátækari og trúaðri kjósenda sem líkaði málflutningur hans. Hann hét því meðal annars að taka á spillingu og tryggja að olíuauður landsins kæmi öllum íbúum þess til góða, en ekki einungis yfirstéttum. Atvinnuleysi er mikið í Íran og djúp gjá á milli ríkra og fátækra. Framsæknari, frjálslyndari og auðugri borgarar studdu Akbar Rafsanjani sem boðaði umbætur. Stuðningsmenn hans óttast íslamska harðlínustefnu og að frjálslyndar umbætur verði afturkallaðar, eins og til dæmis réttur kvenna til að ganga í ljósum litum og léttklæddari áður og réttur karla og kvenna til að umgangast á almannavettvangi án þess að þurfa að óttast handtöku. Ahmedinejad hefur meðal annars sagst ætla að sporna gegn vestrænni úrkynjun. Hann verður fyrsti forseti Írans í 24 ár sem ekki er múslímaklerkur. Hann var áður í sérsveitum varðaráðsins. Óvíst er nákvæmlega hversu miklu kosning hans breytir því eftir sem áður verður það Æjatolla Ali Khameini sem hefur síðasta orðið um stefnu hins opinbera. Forsetinn hefur þó hingað til getað maldað í móinn og haft áhrif á stefnuna. Nú eru hins vegar allar valdastöður í Íran skipaðar íhaldssömum harðlínumönnum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×