Erlent

Mannskæð flóð í Kína

Í það minnsta 536 manns fórust í árlegum sumarflóðum í suðurhluta Kína. Nauðsynlegt hefur verið að flytja hundruð þúsunda manna frá heimilum sínum. Á þessum árstíma ganga jafnan miklar rigningar yfir sunnanvert Kína og af þeim leiðir flóð, aurskriður og aðrar náttúruhamfarir. Flóðin þetta sumarið eru hins vegar þau verstu síðan 1998 en þá týndu á fimmta þúsund manns lífi. Síðastliðnar tvær vikur hafa fundist lík 536 manns sem drukknað hafa í flóðum og aurskriðum. Verst er ástandið í Guangdong-héraði en þar fóru heilu bæirnir á kaf. Á sumum stöðum stóðu einungis toppar símastaura upp úr vatnselgnum. Í Guangxi-héraði varð að rýma heimili 760.000 manna eftir því sem fregnir kínverska ríkissjónvarpsins herma. Óttast er að flóðin geti eyðilagt skólpleiðslur og mengað drykkjarvatn. Slíkt eykur mjög hættuna á að sjúkdómar á borð við kóleru breiðist út en jafnframt gæti uppskera spillst umtalsvert og hungursneyð skapast í kjölfarið. "Þjáningar íbúa sveitahéraða í suðurhluta Kína eiga enn eftir að aukast," sagði Alistair Henley, talsmaður Alþjóða Rauða krossins og Rauða hálfmánans í Peking.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×