Erlent

Vill Bandaríkjaher burt hið fyrsta

Bandaríkin ættu ekki einu sinni að íhuga að fækka hermönnum í Írak næstu árin, að mati bandarískra hershöfðingja. Forsætisráðherra Íraks vill hins vegar að þeir fari við fyrsta mögulega tækifæri. Bandarískir ráðamenn voru á því lengi vel að brottflutningur hersveita frá Írak hefðist á næsta ári. Nú telur Donald Rumsfeld, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, að rangt sé að setja sér einhvers konar tímamörk. Eina afleiðing þess sé að uppreisnar- og hryðjuverkamenn sjái sér hag í að þrauka þangað til þess kemur. Rumsfeld lýsti þessari skoðun sinni við yfirheyrslu hjá þingnefnd í gærdag. John Abizaid, yfirmaður hersveita í Persaflóa, sagði við sama tækifæri að erlendum bardagamönnum, sem streyma inn í Írak, hefði fjölgar undanfarið hálft ár og að andspyrnan hefði síst minnkað. Fréttatímaritið Economist hefur eftir bandarískum hershöfðingjum að í raun væri nær lagi að fjölga bandarískum hermönnum í Írak fremur en að fækka þeim. Þeir segja að það muni taka mörg ár að byggja upp heildstæðan írakskan her með góðum stjórnendum. Ibrahim al-Jaafari, forsætisráðherra Íraks, vill að bandaríski herinn fari eins fljótt og auðið er en segir jafnframt að í ljósi uppreisnarinnar og fjölda erlendra bardagamanna í Írak sé nokkuð í að hersveitirnar fari. Írakar geti enn sem komið er ekki séð um öryggismál sjálfir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×