Sport

Nú verður eitthvað að láta undan

Í fyrsta sinn í sögu tíu liða efstu deildar mætast lið í sjöttu umferð sem bæði hafa fullt hús þegar leikurinn hefst. Valsmenn hafa byrjað best allra nýliða og geta séð til þess að FH-ingar jafni ekki met í kvöld. Þeir gerast varla flottari toppslagirnir en á Hlíðarenda í kvöld þegar Íslandsmeistarar FH heimsækja nýliða Valsmanna í Landsbankadeildinni en liðin eru fyrir leikinn hnífjöfn á toppnum, með fullt hús stiga og jafnmörg mörk skoruð. Það er því ljóst að annaðhvort Valur eða FH eða jafnvel bæði tapa sínum fyrstu stigum í Landsbankadeildinni í sumar en aðeins þrjú önnur lið í sögu efstu deildar hafa náð að vinna fimm fyrstu leiki sína síðan að tíu lið skipuðu hana fyrst sumarið 1977. Íslandsmeistarar FH-inga hafa unnið átta deildarleiki í röð og leikið 21 leik í röð án þess að tapa. FH-ingar geta jafnað met með sigri í kvöld en það yrði níundi útisigur liðsins í röð. FH hefur unnið þrjá fyrstu útileiki sína í sumar og vann auk þess fimm síðustu útileiki sína í fyrrahaust. Aðeins eitt lið hefur unnið fleiri útileiki í röð í sögu tíu liða efstu deildar en KR-ingar unnu 9 útileiki í röð á árunum 1999 til 2000. Síðasta liðið til að hafa stig af FH á sínum eigin heimavelli voru einmitt Skagamenn fyrir rétt tæpu ári síðan en liðin gerðu þá 2-2 jafntefli upp á Skaga. FH-ingar eru nú eitt af fjórum liðum sem hafa unnið 8 útileiki í röð en hin eru Valur (1978), Víkingur (1991-92) og ÍA (1993-94). Valsmenn hafa leikið frábærlega í sumar, unnið alla fimm leiki sína og skorað tvö mörk eða meira í öllum leikjunum. Eitt stærsta prófið á Valsliðið verður í kvöld. FH-ingar hafa gríðarlega sterkan og traustan hóp og hafa unnið sannfærandi sigra í sumar þótt framistaðan hafi kannski ekki verið eins glæsileg og hjá Val. Það er ljóst að eitthvað verður að láta undan á Valsvellinum í kvöld og því má búast við hörkuleik tveggja frábærra liða.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×