Erlent

Ísraelar uggandi vegna Hizbollah

Hizbollah-samtökin og bandamenn þeirra sigruðu með yfirburðum í öðrum hluta líbönsku þingkosninganna á sunnudag. Sigurinn veldur Ísraelum talsverðu hugarangri. Hassan Sabei innanríkisráðherra lýsti því yfir í gær að Hizbollah og sjíasamtökin Amal hefðu unnið öll sautján þingsætin sem kosið var um í suðurhluta landsins í fyrradag. Þá hafði þegar verið ljóst að sex frambjóðendur sameiginlegs framboðs hreyfinganna hefðu til viðbótar verið sjálfkjörnir. Þar með hlaut framboðið 23 þingsæti sem skiptast á milli fjölmargra trúarhópa sem að því standa. Formælandi ísraelska utanríkisráðuneytisins kvaðst í gær áhyggjufullur yfir að Hizbollah væri komin í lykilstöðu í héraði sem ætti landamæri að Ísrael en Ísraelar telja heyfinguna vera hættuleg hryðjuverkasamtök. Hizbollah hefur reyndar neitað að afvopnast eins og ályktanir Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna kveða á um en forsvígismenn samtakanna segjast heyja lögmæta baráttu gegn ísraelskum hermönnum á umdeildu landsvæði á landamærum ríkjanna. Þriðji hluti kosninganna er svo á sunnudag og er reiknað með að Hizbollah geti vegnað ágætlega þá líka.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×