Erlent

Líkamslenging vinsæl í Kína

Vinsælustu fegrunaraðgerðirnar hér á landi eru augnlokaaðgerðir, brjóstastækkanir og fitusog. Í Kína eru það hins vegar sársaukafullar aðgerðir, sem lengja fólk, sem njóta æ meiri vinælda. Ein þeirra auglýsinga sem birtast í kínversku sjónvarpi róma ágæti tækja sem minna helst á pyndingartól frá miðöldum. Árangurinn er sagður kraftaverki líkastur en þetta er eins konar líkamsstrekkjari. Lenging með skurðaðgerð eru þó vænlegri til árangurs og verður æ vinsælli. Beinin í fótleggjunum eru þá brotin, járnpinnum er komið fyrir í brotunum og fótunum haldið í járnspelkum. Sjúklingarnir snúa svo pinnunum til að lengja smátt og smátt á brotnu beinunum áður en nýtt bein myndast á milli brotanna. Þetta er aðferð sem Rússar þróuði fyrir meira en öld. Sjúklingar þurfa að vera frá vinnu í að minnsta kosti hálft ár og greiða um 800 þúsund íslenskrar krónur fyrir. En hvers vegna vilja Kínverjar verja tíma sínum og peningum í sársaukafullar lengingaraðgerðir? Jú, líklega af sömu ástæðu og Íslendingar leggja á sig brjóstastækkanir og fitusog. Þeir trúa því að þeir verði meira aðlaðandi og einnig að þeim vegni betur á vinnumarkaði. Oft og tíðum taka atvinnurekendur fram hversu hávaxnir umsækjendur þurfa að vera. Sun Honggang, forstjóri ráðningarfyrirtækis, segir að í kínverskri menningu trúi fólk því að útlit manns tengist náið örlögum hans. Kínverjar trúi því að hæð manna sé nátengd starfi þeirra og að hávaxið fólk hafi meiri möguleika á stöðuhækkun. Þeir sem verja tíma sínum á lengingarbekk dag hvern eða undirgangast skurðaðgerð til að verða hávaxnari virðast því telja það margborga sig, eins og Wang Juhong verslunarkona sem vonast til að verða fimm sentímetrum hærri með skurðaðgerð og að það verði til þess að rekstur fataverslunar í hennar eigu muni blómstra.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×