Erlent

Segir fangabúðir um víða veröld

MYND/Reuters
Fangabúðir Bandaríkjamanna á Guantanamo-flóa við Kúbu er aðeins eitt af mörgum leynilegum fangelsum þeirra víðs vegar um veröldina. Þar er mönnum er haldið, þeir beittir misrétti og jafnvel teknir af lífi án dóms og laga. Þessu heldur yfirmaður Bandaríkjadeildar Amnesty International fram. Mannréttindasamtökin Amnesty International og Hvíta húsið hafa undanfarið staðið í hatrammri deilu vegna ásakana Amnesty um stríðsglæpi Bandaríkjamanna og að fangelsi þeirra á Guantanamo-flóa sé gúlag vorra tíma . Bandarískir ráðamenn urðu æfir vegna þessa. Bush Bandaríkjaforseti sagði ásakanirnar fáránlegar og í sama streng tóku þeir Donald Rumsfeld varnarmálaráðherra og Dick Cheney varaforseti. Í viðtali á sjónvarpsstöðinni Fox í gærkvöld stóð William Schulz, yfirmaður Bandaríkjadeildar Amnesty International, þó fast á því að meðferð fanganna í Guantanamo væri vítaverð og að fangelsið væri aðeins eitt af mörgum leynilegum fangelsum Bandaríkjamanna sem staðsett væru víða um heim. Fólk væri fangelsað án dóms og laga og það hyrfi án þess að fjölskyldur þeirra hefði hugmynd um hvar það væri niðurkomið. Þá þekktu samtökin dæmi þess að föngunum væri misþyrmt og þeir jafnvel teknir af lífi í slíkum fangabúðum. Bandaríkjamenn hafa verið með herstöð sína á Guantanamo-flóa frá árinu 1903. Um þessar mundir eru 540 menn þar í haldi. Amnesty International eru ekki einu alþjóðasamtökin sem gagnrýnt hafa meðferð fanganna í Guantanamo. Í skýrslu Rauða krossins á síðasta ári eru sálrænar og líkamlegar aðferðir sem notaðar eru í fangelsinu við yfirheyrslur fanga lagaðar að jöfnu við pyndingar og Human Rights Watch segir þær niðurlægjandi fyrir fanga og brjóta í bága við ákvæði Genfarsáttmálans.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×