Erlent

Sviss verður hluti af Schengen

Svisslendingar samþykktu í gær Schengen-samkomulagið með naumum meirihluta í þjóðaratkvæðagreiðslu. Evrópusambandið fékk því styrk úr óvæntri átt á annars erfiðum tímum í sögu sambandsins. Sviss hefur hingað til viljað standa utan við flest það sem hefur með Evrópusamvinnu að gera og eru hvorki í Evrópusambandinu né eiga þeir aðild að evrópska efnahagssvæðinu. Einnig var kosið um aukin réttindi samkynhneigðra og er það í fyrsta skipti sem þjóðaratkvæðagreiðsla á sér stað um þau málefni í Evrópu. Um 58% kjósenda samþykktu að veita samkynhneigðum stóraukin réttindi. Meðal þeirra réttinda má telja að samkynhneigð pör skulu hafa sömu lagalegu stöðu og gagnkynhneigð hvað varðar skattgreiðslur og lífeyrisréttindi en mega þó hvorki ættleiða né gangast undir glasafrjóvgunaraðgerðir. Niðurstöður kosninganna þykja sýna að Svisslendingar vilji gjarnan hafa meira við Evrópusambandið að sælda. Samuel Schmid forsætisráðherra sagði niðurstöðurnar staðfesta gagnkvæman vilja um aukið samstarf.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×