Erlent

Alþjóðlega umhverfisdeginum fagnað

Víða um heim fögnuðu menn alþjóðlega umhverfisdeginum sem að þessu sinni var haldinn undir yfirskriftinni Grænar borgir. Með því var ætlunin að beina sjónum manna að vaxandi umhverfisvandamálum í borgum. Næstum helmingur jarðarbúa býr í borgum og er búist við að eftir aldarfjórðung verði það hlutfall komið upp í 60 prósent. Af þeim tæplega helmingi sem býr nú í borgum á þriðjungur heima í fátækrahverfum, flestir í þróunarlöndum. Þá er loftmengun í borgum víða mikið vandamál en rekja má hálfa milljón dauðsfalla til efna sem eru í útblæstri bíla. Í dag var hugað að leiðum til að gera borgir umhverfisvænni og „grænni“, m.a. með gróðursetningu trjáa og með því að vekja fólk til umhugsunar um allan þann úrgang sem það losar sig við. Sameinuðu þjóðirnar komu alþjóðlega umhverfisdeginum á fót árið 1972 og hann er haldinn hátíðlegur 5. júní ár hvert.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×