Erlent

Kæruleysi að hætti Hómers Simpson

Breskir ráðamenn líta lekann á hágeislavirkum efnum í Thorp-kjarnorkuendurvinnslustöðinni í Sellafield sem uppgötvaðist í apríl mjög alvarlegum augum. Vera má að dagar stöðvarinnar séu taldir. Breska dagblaðið The Independent on Sunday rakti í gær niðurstöður leyniskýrslu um lekann og viðbrögð ráðamanna við henni. Málmþreyta í leiðslu er sögð orsök þess að 83.000 lítrar af geislavirkum vökva láku í sérstaka safnþró. Starfsmenn eru jafnframt harðlega gagnrýndir fyrir að hafa ekki uppgötvað lekann fyrr en mörgum mánuðum eftir að hann hófst. "Þetta eru mistök sem einungis Hómer Simpson virðist hafa verið fær um að gera," sagði David Willets, viðskiptaráðherra í skuggaráðuneyti íhaldsmanna. Stöðin hefur verið lokuð síðan óhappsins varð vart og í einkasamtölum við blaðamenn segjast háttsettir embættismenn ekki reikna með að hún verði opnuð framar. Hreinsun svæðisins verður hins vegar afar kostnaðarsöm og einnig þarf að flytja þann kjarnorkuúrgang sem enn á eftir að vinna aftur til upprunalanda sinna. Samkvæmt mælikvarða Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar telst atvikið þriðju gráðu slys - alvarlegt atvik - en sjöunda gráðan er sú hæsta. Síðasta slysið í Bretlandi af þessari gráðu varð í Sellafield árið 1992. Sex ár eru liðin síðan fjórðu gráðu slys varð árið 1999 en þá dóu þrír verkamenn í japönsku kjarnorkuveri eftir að hafa blandað kjarnorkueldsneyti í fötu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×