Innlent

Ótti og óvissa á Stöðvarfirði

Ótti og óvissa ríkir á Stöðvarfirði eftir að öllu starfsfólki frystihúss Samherja var sagt þar upp í dag, alls 32. Talsmaður Samherja segist hafa fulla trú á að allir finni vinnu fljótlega, nóg sé að gera á Mið-Austurlandi. Samherji hyggst sameina landvinnslur félagsins á Dalvík, en í því felist hagræðing og þess vegna sé hún flutt frá Stöðvarfirði. Gestur Geirsson, framkvæmdastjóri landvinnslu Samherja, segir vöntun á fólki á öllu Mið-Austurlandi, hvort sem er á Stöðvarfirði, Breiðdalsvík eða Reyðarfirði. Hann segir Samherja munu aðstoða fólk við að finna vinnu með því að niðurgreiða ferðir á þá staði þar sem vinnu er að fá og að Samherji eigi í viðræðum við fyrirtæki í sjávarútvegi um hráefnisöflun og markaðssetningu til þess að geta fjölgað störfum á svæðinu. Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir, formaður stéttarfélagsins Vökuls, segir starfsmenn frystihússins kvíða framhaldinu. Hjördís segir menn síður vilja leita til næstu sveitarfélaga sem eru lengra frá heimili og vinum. Þó muni fólk gera það sem það þarf til að ná endum saman.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×