Erlent

Hunsi kosningar um gervifrjóvgun

Benedikt XVI páfi hefur hvatt ítalska kjósendur til þess að hunsa kosningar um hvort eigi að leyfa gervifrjóvganir í landinu. Kosningar um hvort eigi að leyfa gervifrjóvganir á Ítalíu eru mikið hitamál þar í landi. Með því að taka afstöðu gegn gervifrjóvgun steypir Benedikt páfi sér beint út í póilitíska umræðu í fyrsta skipti síðan hann tók við páfadómi. Hann gerði þetta óbeint þannig að hann hvatti ekki sjálfur fólk til þess að sitja heima og hunsa kosningarnar. Þess í stað blessaði hann og lofaði hóp biskupa sem hafa barist gegn því að lögum um gervifrjóvgun verði leyfð. Engu að síður er hann með þessu kominn á kaf í ítalska pólitík og því kunna stuðningsmenn frumvarpsins illa. Talsmaður Róttæka flokksins, Daniel Capessoni, sagði til dæmis að þetta væri einstæð árás sem miðaði að því að koma ítölsku lýðræði undir stjórn Páfagarðs. Hann sagði að enginn bannaði kirkjunni að hafa skoðanir en að ekki ætti að leyfa leiðtogum hennar að fara í herferð til þess að skipta sér af kosningum í landi sem teljist vera sjálfstætt. Þess ber að geta að Páfagarður er í raun sjálfstætt ríki á Ítalíu. Capessoni hvatti forseta Ítalíu til þess að gefa út yfirlýsingu til þess að verja aðskilnað ríkis og kirkju.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×