Erlent

Hermannaveiki í rénun í Noregi

Hermannveikifaraldurinn í Fredrikstad í Noregi, sem lagt hefur fimm menn að velli, virðist í rénum. Frá því í gærmorgun hafa engir nýir sjúklingar á sjúkrahúsinu Östfold greinst með veikina. Stjórnvöld hafa fyrirskipað að öll loftræstikerfi á svæðinu skuli hreinsuð fyrir miðnætti. Fyrir helgi voru 43 sjúklingar smitaðir af hermannveiki lagðir inn á sjúkrahúsið Östfold í Fredrikstað. Af þeim létust fimm og tveir liggja þungt haldnir í öndunarvél. Sex hermannaveikisjúklingar hafa verið útskrifaðir eftir meðferð og lyfjagjöf. Taka á blóðprufur úr starfsfólki sjúkrahússins, sem annast hafa sjúklingana, til að taka af allan grun um að þeir hafi ekki smitast. Engin þeirra rannsókna sem gerðar hafa verið á hermannveiki víðs vegar um verldina síðustu áratugi benda þó til þess að hún smitist manna á milli. Faraldurinn er rekinn til loftræstikerfa í eða við Fredrikstad. Heilbrigðisráðherra hefur fyrirskipað að öll loftæstikerfi á svæðinu verði hreinsuð fyrir miðnætti. Að öðrum kosti verður byggingunum lokað. Atvinnurekendur eru örvæntingafullur enda hafa sum loftræstikerfin ekki verið þrifin frá því þau voru sett upp, eða í allt að þrjá áratugi. Sumir virðast einfaldlega ekki hafa gert sér grein fyrir að slíkt væri nauðsynlegt eða leitt að því hugann að það væri slíkt kerfi í byggingum á þeirra vegum. Starfsmenn fyrirtækja sem sjá um að þjónusta slík kerfi vinna myrkranna á milli enda tekur það einn eða tvo daga að sinna einum viðskiptavini og ljóst að einhverjum byggingum verður lokað. Heilbrigðisráðherra segist skilja ugg atvinnurekenda sem gætu þurft að loka í einhverja daga af þessum sökum en segir að velferð starfsmanna og viðskiptavina sé ofar á forgangslistanum ef grunur leikur á að þeir geti smitast af hermannaveiki í viðkomandi bygginum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×