Erlent

Segir al-Zarqawi hugsanlega í Íran

Talsmenn stjórnvalda í Íran vísa á bug frétt í breska blaðinu Sunday Times að al-Zarqawi, leiðtogi al-Qaida í Írak, hafi verið fluttur alvarlega særður til Írans. Sunday Times greinir frá því í dag að Abu Musab al-Zarqawi hafi hugsanlega verið fluttur til Írans þar sem hann hafi særst illa fyrir skömmu. Blaðið hefur eftir hátttsettum manni í hópi uppreisnarmanna að al-Zarqawi sé með sprengjubrot í brjóstinu og hafi því hugsanlega verið fluttur til nágrannaríkisins til þess að gangast undir aðgerð. Talsmaður innanríkisráðuneytis Írans hafnar hins vegar fréttinni algjörlega og segir hana tilbúning. Sunday Times segir al-Zarqawi hafa særst fyrir þremur vikum þegar bandarískt flugskeyti lenti á bílalest hans nærri borginni Qaim í Norðvestur-Írak, en al-Qaida samtökin í Írak sendu í síðustu viku frá sér yfirlýsingu sama efnis. Al-Zarqawi er efstur á lista Bandaríkjamanna yfir eftirlýsta menn í Írak og hafa 25 milljónir dollara verið settar til höfuðs honum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×