Erlent

Óánægja með stjórnvöld ráði höfnun

Allt bendir til að Frakkar hafni stjórnarskrá Evrópusambandsins á sunnudaginn. Óánægja með eigin hag virðist ástæða þessa frekar en grundvallarandstaða við efni og tilgang stjórnarskrárinnar. Jacques Chirac Frakklandsforseti birtist löndum sínum í sjónvarpsávarpi í gærkvöldi og gerði örvæntingarfulla tilraun til að sannfæra þá um ágæti stjórnarskrár Evrópusambandsins. Það virðist ekki hafa skilað miklu miðað við svörin sem fengust á götum Parísar í morgun. Bertrand Buguet sagðist ætla að segja nei þar sem hann teldi að ef byggja ætti upp trausta Evrópu þyrfti að skilgreina tilteknar breytur. Honum fyndist þær óskýrar nú. Rezicka Hellel, sem er fylgjandi stjórnarskránni, sagðist ætla að samþykkja hana þar sem hún styddi Evrópu. Stjórnmálaskýrendur segja nokkrar ástæður liggja á bak við afstöðu fransks almennings, en 55 prósent aðspurðra eru mótfallin stjórnarskránni. Dominique Moisi hjá frönsku alþjóðastjórnmálastofnuninni nefnir þrennt. Fólk segi nei til mótmæla Chirac og það tjái ótta sinn og næstum því örvæntingu vegna mikils atvinnuleysis. Þá lýsi það fyrirvara sínum um stöðu Evrópu eftir stækkun ESB. Því sé um að ræða sambland pólitískrar, efnahagslegrar og evrópskrar víddar. Við þetta bætist að fáir vita um hvað stjórnarskráin snýst í raun og veru. Simon O'Connor, sérfræðingur í málefnum ESB, telur að stjórnarskráin sé vel heppnuð að því leyti að með henni hafi skapast opnari leið til að endurskoða Evrópusáttmálana en áður. Hins vegar sé stjórnarskráin mislukkuð að því leyti að almenningur um gervalla Evrópu viti harla lítið um tilvist hennar og lítil umræða hafi farið um hana. Aðeins í ríkljunum þar sem þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram sé einhver umræða um málin. Oft sé fólk illa upplýst, ranghugmyndir séu uppi en að minnsta kosti fari umræðan fram og það sé jákvætt.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×