Erlent

Uppreisn í Úsbekistan

Mótmælendur hafa farið mikinn í borginni Andijan í austurhluta Úsbekistans undanfarna daga í mótmælum gegn ríkisstjórn Islams Karimov. Meira en 700 manns hafa látist í landinu síðan á föstudag þegar uppreisnarmenn réðust í fangelsi í borginni og frelsuðu þaðan 23 pólitíska fanga. Krafa uppreisnarmannanna er skýr; þeir vilja ríkisstjórnina frá. Stjórnarherinn hefur barið niður uppreisnarmenn með miklu offorsi og stefnir í mesta mannfall í slíkum aðgerðum í Asíu síðan Kínaher barði á stúdentum á Torgi hins himneska friðar árið 1989. Nú þegar eru flóttamenn farnir að streyma frá landinu og sérstaklega reyna margir að flýja til Kirgisistans en þarlend stjórnvöld eru þó treg til að taka við flóttamönnunum. Undanfarnar vikur hefur risið upp hreyfing manna sem mótmæla stjórnarháttum ríkisstjórnar Islams Karimov sem hefur haldið fast um stjórnartaumana síðan Sovétríkin liðu undir lok fyrir fjórtán árum. Mótmælendurnir líta gjarnan til nágranna sinna í Kirgisistan sem hröktu forseta sinn, Askar Akajev, frá völdum og þá einnig til Appelsínu- og Rósabyltinganna í Úkraínu og Georgíu. Kabuljon Parpiyev, leiðtogi uppreisnarmanna, sagði í samtali við AP-fréttastofuna að engan bilbug væri að finna á mótmælendum og þeim væri sama þótt það myndi kosta hundruð mannslífa enn að koma stjórnvöldum frá. Rússar eru farnir að saka Bandaríkin og fleiri lönd um að grafa meðvitað undan Moskvuhollum ríkisstjórnum í fyrrverandi Sovétlýðveldum. Nikolaj Patrúsjeff, yfirmaður rússnesku leyniþjónustunnar FSB, heldur því fram að Bandaríkin beiti óháðum félagasamtökum til að njósna og ýta undir róstur til að tryggja að stjórnmálamenn sem vilja halla sér til vesturs komist að í sem flestum fyrrverandi Sovétlýðveldum. Nýverið hrósaði George Bush Bandaríkjaforseti Georgíumönnum fyrir Rósabyltinguna og var ákaft hylltur í heimsókn sinni þangað.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×