Erlent

Bandaríkin kalla hermenn heim

Bandaríkjamenn hafa ákveðið að flytja 13 þúsund hermenn frá Þýskalandi og Suður-Kóreu. Þetta er liður í allsherjarniðurskurði þar sem til stendur að loka um 150 herstöðvum. Um þetta var tilkynnt í bandaríska varnarmálaráðuneytinu í gær. Þegar tilkynnt var um fyrirhugaðar breytingar í fyrra sagði George W. Bush forseti að til stæði að flytja 70 þúsund hermenn heim á næsta áratugnum. Meira en 200 þúsund bandarískir hermenn eru nú í herstöðvum víða um heim, flestir í Evrópu. Tilgangurinn með þessum aðgerðum er að gera herinn sveigjanlegri og stytta viðbragðstíma hans ásamt því sem kostnaður lækkar. Illugi Gunnarsson, aðstoðarmaður utanríkisráðherra, segir að varnarmál Íslands séu í ákveðnum farvegi eftir fundi Davíðs Oddssonar með George Bush og Colin Powell fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Ekki sé búist við því að Bandaríkjamenn dragi herlið sitt héðan án þess að hafa um það samráð við hérlend stjórnvöld.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×