Erlent

Tólf milljónir manna í þrælkun

Rúmar tólf milljónir manna um allan heim búa við þrælkun af einhverju tagi. Hagnaður þeirra sem versla með þræla er talinn nema tæpum tvö þúsund milljörðum króna á ári. Stærstur hluti þrælanna er enn á barnsaldri. Alþjóðavinnumálastofnunin ILO kynnti í gær skýrslu sína um vinnuþrælkun og aðgerðir gegn henni en þetta er í annað skipti á þessari öld sem ILO gefur út slíka skýrslu. Þar kemur fram að 12,3 milljónir manna hafi verið hnepptar í þrældóm um allan heim. Verst er ástandið í Asíu þar sem 9,5 milljónir manna búa við þrælkun. Í Suður- og Mið-Ameríku eru 1,3 milljónir þrælar, 660.000 í Afríku sunnan Sahara, 260.000 í Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku og 210.000 í gömlu austurblokkinni. 360.000 manns eru ánauðug á Vesturlöndum. Fimmtungur allra þræla ganga kaupum og sölum og eru fluttir á milli staða. Skýrsluhöfundar telja að þeir sem stundi slík viðskipti hafi sem nemur tvö þúsund milljarða króna upp úr krafsinu, um 800.000 krónur á hvern þræl. Ekki er merkjanlegur kynjamunur í þeim störfum sem þrælarnir verða að inna af hendi. Þetta á sérstaklega við greinar á borð við landbúnað, byggingarframkvæmdir, múrsteinagerð og verksmiðjustörf. Hins vegar eru nær eingöngu konur og stúlkur þvingaðar í kynlífsánauð. Talið er að 40-50 prósent þeirra sem búa við þrælkun séu börn undir átján ára aldri. "Þrælkun sýnir verstu hliðar hnattvæðingarinnar enda er þeim sem eru hnepptir í þrældóm neitað um lágmarksmannréttindi og reisn," segir Juan Somavia, framkvæmdastjóri ILO. "Til að markmið hnattvæðingar náist verður að uppræta þrælahald." Skýrsluhöfundar segja að hægt sé að uppræta þrælahald en aðeins ef ríkisstjórnir og alþjóðastofnanir beiti markvissum aðgerðum, til dæmis með hertari löggjöf á þessu sviði.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×