Erlent

ESB herðir vinnulöggjöf sína

Evrópusambandið hefur ákveðið að herða vinnutímalöggjöf sína þannig að erfiðara verður að fá undanþágu frá þeirri meginreglu að fólk eigi að meðaltali ekki að vinna meira en 48 klukkustundir á viku. Vinnutímalöggjöf Evrópusambandsins kveður á um 48 stunda vinnuviku að meðaltali, eða minna; a.m.k. ellefu klukkustunda samfellda hvíld á hverjum degi og reglulegar pásur. Næturvinna er frekari takmörkunum háð og má ekki fara yfir átta klukkustundir á sólarhring og lágmarks sumarfrí er fjórar vikur. Í dag er auðvelt að fá undanþágu frá þessu og einstaklingar geta krafist þess að vinna lengur ef þörf þykir. Evrópuþingið samþykkti hins vegar í morgun að draga úr þessum undanþágum á næstu þremur árum og stefna að því að hætta þeim alveg. Stjórnvöld í Bretlandi, Frakklandi, Þýskalandi og á Spáni hafa notfært sér undanþágurnar, sérstaklega í rekstri heilbrigðiskerfisins, til að komast hjá því að reikna bakvaktir lækna sem vinnutíma inn í þessa hefðbundnu 48 stunda vinnuviku. Þessar ríkisstjórnir óttast nú að öngþveiti og læknaskortur skapist á sjúkrahúsum. Það er aðallega breska ríkisstjórnin sem er algerlega á móti því að herða þessi lög enn frekar og fullyrðir að þessar breytingar muni draga úr samkeppnishæfni fyrirtækja. Búist er við því að Bretar muni reyna allt sem í þeirra valdi stendur til að koma í veg fyrir þessa breytingu og muni leita fulltingis nýrra ESB-landa frá Austur-Evrópu sem einnig eru óhress með þetta fyrirkomulag.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×