Erlent

60 ár frá uppgjöf nasista

Sextíu ár eru liðin í dag, 7. maí, frá því að nasistar gáfust upp fyrir bandamönnum í seinni heimsstyrjöldinni.  „Friður í Evrópu tilkynntur í dag“; þannig hljómaði fyrirsögnin á forsíðu Morgunblaðsins þann 8. maí árið 1945, daginn sem uppgjöf nasista í síðari heimstyrjöldinni tók gildi. Daginn eftir lauk stríðinu svo formlega. Í Morgunblaðinu sagði að 8. maí lyki styrjöld sem staðið hefði í Evrópu í hátt á sjötta ár. Einnig sagði að Rússar hefðu tilkynnt að lík Göbbels, áróðurmálaráðherra Hitlers, og fjölskyldu hans hefði fundist í Berlín og að Svíar hefðu slitið stjórnmálasambandi við Þjóðverja. Stríðslokanna verður minnst víða í Evrópu á mánudag, 9. maí, til dæmis í Moskvu í Rússlandi en búist er við að meira en 50 þjóðhöfðingjar og fulltrúar ríkisstjórna taki þátt í hátíðarhöldunum í borginni. Meðal þeirra verður George Bush, forseti Bandaríkjanna, og Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra Íslands. Vladímir Pútín, forseti Rússlandi, afhjúpaði í dag minnismerki í Moskvu í tilefni þess að 60 ár eru liðin frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar. Við það tækifæri vottaði Pútín sovéskum stríðshetjum virðingu sína og sagði að þátttaka Sovétríkjanna í stríðinu hefði frelsað Evrópu undan nasistum Þýskalands. Tæplega 27 milljónir Sovétmanna létu lífið í heimsstyrjöldinni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×