Erlent

Málaferli hjá Mandela

Friðarfrömuðurinn Nelson Mandela hefur nú sagt þeim stríð á hendur sem misnota nafn hans í ágóðaskyni. Hann hefur ráðið hóp lögmanna til að gæta hagsmuna sinna. Fáir jarðarbúa geta státað af viðlíka frægð og virðingu og hinn 87 ára gamli friðarpostuli og það er greinilegt vildu allir Lilju kveðið hafa. Alls kyns munir og menjar bera nafn Mandela og má fullyrða að hann hafi ekki gefið leyfi fyrir nema broti af þeim. Nú hefur hann fengið nóg. "Ef nefna á safn eða menntastofnun í höfuðið á honum eru allar líkur á að hann samþykki það, ef hann er beðinn um leyfi fyrst," segir Don MacRobert, einn lögmanna Mandela. "Ef þú vilt fá nafnið lánað í auðgunarskyni, til dæmis á boli eða hatta þá er svarið nei." Áströlskum manni var á dögunum stefnt en hann hafði skráð internetlénið nelsonmandela.com. Þá vildi hollensk kona nefna fyrirtæki sitt Nelson Mandela og þegar Mandela mótmælti því sagði hún að nafnið væri í raun heilagt orð á sanskrít. Meira að segja fyrrum lögmanni og vini Mandelda, Ismael Ayob, hefur verið stefnt en hann er grunaður um að hafa stungið ágóða af málverkasölu kappans í eigin vasa og falsað undirskrift hans á fjölda verka.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×