Innlent

Hertar reglur um umferð utan vega

Hertar og skýrari reglur um akstur utan vega eru í burðarliðnum í umhverfisráðuneytinu. Þar er nú verið að leggja lokahönd á endurskoðun á reglugerð um umferð utan vega. Stefnt er að því að gefa hana út fyrir mánaðarmót. "Við erum búin að kynna drög að endurskoðaðri reglugerð fyrir hagsmunaaðilum," sagði Magnús Jóhannsson ráðuneytisstjóri í umhverfisráðuneytinu. "Þeir eru með þau til umsagnar og við eigum von á að fá umsagnirnar á allra næstu dögum." Magnús sagði að reglugerðin tæki einkum til miðhálendisins. Umræðan um akstur utan vega hefði fyrst og fremst varðað það svæði. Miðað væri við að reglugerðin yrði komin út áður en um það umferð hæfist. Mikið hefði verið kvartað undan akstri utan vega á hálendinu á síðasta ári. Þar hefðu einkum átt í hlut erlendir ferðamenn. Magnús kvaðst ekki geta tjáð sig um þær breytingar í smáatriðum sem gerðar yrðu á reglugerðinni, þar sem hún væri enn í vinnslu. "Núgildandi reglugerð er gamaldags orðin og úr sér gengin. Hún er ekki heldur að öllu leyti í samræmi við lögin. Reglurnar verða skýrari og ákveðnari heldur en áður og taka til fleiri þátta en áður," sagði Magnús. "Reglugerðin nær ekki einungis til bifreiða, heldur einnig vélknúinna hjóla svo og umferðar hrossa. Markmið hennar verður að skýra hlutina fyrir fólki, þannig að því sé ljósara en áður hvað má og hvað má ekki." Magnús sagði að auk endurskoðunarinnar væri verið að leggja drög að því að gera vega- eða slóðakort af hálendinu þar sem skýrt kæmi fram hvar mætti aka. Í framtíðinni gæti fólk orðið sér úti um kort sem sýndi klárlega hvar það mætti vera á ferðinni. "Ráðuneytið hefur styrkt fræðslu- og áróðursherferðir sem fara í gang í sumar, meðal annars í gegnum Norrænu," sagði Magnús." Allir ferðamenn sem hingað koma fá að líkindum áróðursspjöld. Sömuleiðis verður unnið í þessu í tengslum við bílaleigurnar."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×