Innlent

Ástarávöxtur í Bolungarvík

Ávöxtur ástarviku í Bolungarvík í fyrra er eitt barn sem fæðist í maí. Soffía Vagnsdóttir, bæjarfulltrúi og forsprakki ástarvikunnar, segir að blásið verði til fagnaðar "með einhverjum hætti" þegar barnið fæðist og því færðar gjafir frá Bjarnabúð. Barnið er af alþjóðlegu þjóðerni, móðirin pólsk og faðirinn íslenskur. Þrátt fyrir lélega uppskeru eftir síðustu ástarviku eru Bolvíkingar ekki af baki dottnir. Þeir eru nú að undirbúa nýja ástarviku í ágúst og segir Soffía að verið sé að leggja drög að ýmsu. "Við vinnum að því að fá fleira ungt fólk í bæinn," segir hún. Sjálf er Soffía að verða amma en það er ekki fyrr en í júlí og telst barnið því ekki ávöxtur ástarvikunnar síðasta haust. Akrahreppur í Skagafirði stóð fyrir ástarviku fyrir nokkrum árum og gaf hverju barni 100 þúsund krónur í verðlaun. Agnar H. Gunnarsson oddviti segir að hætt hafi staðið með ástarvikuna þegar skatturinn leit á gjöfina sem tekjur og innheimti skatt af henni. Börnunum hafi þó fjölgað á tímabili.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×