Erlent

Norskur Malagafangi

Lögregla á Spáni hefur handtekið norskan mann, sem grunaður er um að vera forsprakki glæpagengis sem rændi banka í Stafangri í fyrra, þar sem lögreglumaður var skotinn til bana. Maðurinn er 29 ára og heitir David Alexander Toska, en hann var handsamaður í Malaga á Suður-Spáni, nákvæmlega upp á dag ári eftir að ránið var framið, en það var eitt það stærsta og bíræfnasta sem framið hefur verið í Noregi. Toska er sakaður um að hafa farið fyrir um tólf manna ræningjahóp sem stal 58 milljónum norskra króna, andvirði yfir 560 milljóna íslenskra, úr seðladreifingarmiðstöð banka á Stafangurssvæðinu, í miðborg Stafangurs snemma morguns 5. apríl 2004. Annar maður, Dani Bungard að nafni, var handtekinn ásamt Toska, að sögn spænsku lögreglunnar. Samkvæmt heimildum fjölmiðla var Bungard eftirlýstur vegna fíkniefnabrota en ekki í tengslum við bankaránið. Framsalsbeiðni norskra yfirvalda verður tekin fyrir af dómstól í Madríd en henni hyggst Toska verjast af kjafti og klóm, að því er fram kemur á fréttavef Aftenposten.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×