Erlent

Fyrsti forseti Kúrda í Írak

Fagnaðarlæti brutust út á meðal írakskra Kúrda í dag þegar ljóst var að Jalal Talabani yrði næsti forseti landsins. Þetta er í fyrsta sinn í sögunni sem Kúrdi gegnir þessu æðsta embætti Íraks. Pattstaða hefur ríkt á íraska þinginu frá því kosið var í janúarlok því þingmenn hafa átt í miklum erfiðleikum með að ná samstöðu um það hverja eigi að skipa í embætti forseta og varaforseta landsins. Í morgun var loks höggvið á þann hnút þegar Jalal Talabani var kjörinn forseti og sjítinn Abdul-Mahdi og súnninn Al-Yawer varaforsetar. Það var mikið fagnað á þinginu þegar niðurstaðan var ljós. Jalal Talabani sagði að fjölþjóðaherinn hefði komið til Íraks til að frelsa þjóðina undan einræði. Þegar Írakar hefðu byggt upp hersveitir sínar yrði erlendi herinn beðinn um að yfirgefa landið. Það brutust líka út fagnaðarlæti meðal Kúrda. Þetta er merkur áfangi fyrir Kúrda sem eru 20 prósent Íraka en hafa lengi verið í stöðu kúgaðs minnihluta í landinu og máttu þola margháttaðar ofsóknir af hálfu fyrrverandi stjórnvalda. Skýrt var frá því í dag að Saddam Hussein, fyrrverandi forseti landsins, og ellefu samstarfsmenn hans sem sitja í fangelsi hefðu fengið að horfa á sjónvarpsútsendingu úr þinginu í dag, að sögn, svo þeir gætu áttað sig á því að þeirra tími væri endanlega útrunninn og nýir tíma upprunnir. Talabani og varaforsetarnir hafa nú hálfan mánuð til að velja forsætisráðherra Íraks sem síðan velur sjálfur sína ráðherra og skipar í ríkisstjórn. Þegar er búið að ganga frá því að næsti forsætisráðherra verði sjítinn Ibrahim al-Jaafari.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×