Erlent

Ringlulreið í Rómaborg

Algjör ringulreið ríkir í Rómaborg vegna mannfjöldans sem streymir til borgarinnar til að votta páfa sína hinstu virðingu. Öngþveiti er í umferðinni, hótel í 200 kílómetra radíus eru uppbókuð og fólk örmagnast í hundraðatali í biðröðinni fyrir utan Péturskirkjuna. Það skiptir engu þótt yfirvöld hafi reynt með öllum ráðum að draga úr áhuga manna, vara við umferðartöfunum, biðröðunum og húsnæðisleysi, fólk streymir til Rómaborgar hvaðanæva úr heiminum og lætur sig hafa það að standa í biðröð í allt að fimmtán klukkustundir, í fimbulkulda á nóttunni og steikjandi hita yfir daginn, til þess að sjá líkið af páfa í tæplega mínútu. Biðröðin fyrir utan Péturskirkjuna er nú tveir kílómetrar á lengd og lengist stöðugt, sérstaklega eftir að það fréttist að enginn fær að bætast í hana eftir klukkan átta í kvöld. Þeir sem ná í röðina fyrir þann tíma fá að fara inn en eftir það hefst undirbúningur jarðarfararinnar á föstudagsmorgun. Mörgum götum borgarinnar hefur verið lokað fyrir umferð vegna mannfjöldans og í hinum stendur allt fast. Almenningssamgöngur eru að sprengja allt utan af sér og á morgun og föstudag verður bannað að fljúga yfir borgina af öryggisástæðum. Þá verður öll umferð bíla bönnuð í Róm á föstudaginn. Engin hótel er að fá fyrir allan þennan mannfjölda og öll gistirými í nágrenninu eru uppbókuð. Yfirvöld hafa brugðið á það ráð að breyta sýningasölum í gistiheimili og setja upp nokkurs konar tjaldborgir í útjaðri borgarinnar fyrir fólk sem á í engin hús að venda. Það ætti þó ekki að væsa um fyrirmennin, þjóðar- og trúarleiðtogana sem flykkjast til Rómar á morgun fyrir jarðarförina, þeirra á meðal Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra. Vatíkanið hafði gert ráðstafanir og pantað hótel fyrir þetta fólk um leið og ljóst var í hvað stefndi. Það er kannski eins gott því búist er við fjórum konungum, fimm drottningum og að minnsta kosti 70 forsetum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×