Erlent

Aðgerðum í jafnréttismálum mótmælt

Atvinnurekendur í Noregi hafa mótmælt harðlega þeim áformum stjórnvalda landsins að banna starfsemi fyrirtækja sem neita að festa í sessi stefnu um að hlutfall kvenna í stjórnum þeirra verði minnst 40 prósent, innan ársins 2007. Sigrun Vaageng, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins í Noregi, hafnar því að hægt sé að skikka atvinnurekendur til þessara aðgerða með lagasetningu. Hún segir fyrirtæki vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna og óttast að boðuð lagasetning dragi verulega úr áhuga fjárfesta á þeim. Fulltrúar norsku ríkisstjórnarinnar tilkynntu í gær að líklega yrði gripið til aðgerðanna og sagði Laila Daavöy, barna- og fjölskyldumálaráðherra, að stjórnin hefði fengið sig fullsadda á fyrirtækjum sem drægju lappirnar í jafnréttismálum. Hlutfall kvenna í stjórnum fyrirtækja í Noregi er um 11 prósent og hefur það hækkað um 5 af hundraði frá árinu 2002.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×